laugardagur, ágúst 25, 2012

Leiðum að líkjast

Mér skilst að óskað sé eftir áliti feminista á viðtali sem Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson tók við Steinunni Gunnlaugsdóttur* þar sem þau ræddu um listaverk Steinunnar sem er „afrakstur greiningar á þeirri bylgju femínisma sem verið hefur áberandi á Íslandi síðustu árin og átti sér ákveðin vendipunkt fyrir tæpu ári þegar Stóra Systir, áður óþekkt orwellísk samtök vændisandstæðinga.“ Viðtalið gengur annars útá að að dissa Stóru systur sem eitthvert borgarlegt teprudæmi með kristilegum undirtóni. Það er fáránlegra mat en orð fá lýst.

Álit mitt fylgir hér á eftir. Fyrst vil ég reyndar nota voða vonda rökvillu og ráðast á þau bæði, Snorra og Steinunni. Reyndar hef ég ekki alltaf séð ástæðu til að ráðast á þau, áður var ég í því liði sem varði þau.** Það var meðan þau voru í hópi níumenninganna sem voru ákærð fyrir árás á alþingi. Þegar málið fór fyrir dóm runnu á mig tvær grímur því þau tvö, Steinunn og Snorri Páll, höfðu fengið Brynjar Níelsson til að verja sig. Ég reyndi eftir fremsta megni að ímynda mér að þau vissu bara ekkert um hann og hans skoðanir, og hefðu valið hann eftir ábendingu annarra. Samt fannst mér mjög óþægilegt að vera á bandi fólks sem fékk alþekktan nauðgaraverjanda og hatursmann feminista til að tala máli sínu.

En nú virðist mér sem það hafi ekki verið óvart sem þau völdu Brynjar. Því af þessu viðtali að dæma ber ekki mikið á milli skoðana hans á vændi og nektardansstöðum og dálæti á Geira í Goldfinger.
„Steinunn: Þegar Geiri dó fannst mér ég þurfa að heiðra minningu hans. Hann er sterkari táknmynd í þessu sambandi því í hugum fólks er opinbera persónan Geiri frekar tengdur vændi og vöruvæðingu kvenlíkamans. Þótt fígúran Gillz hafi kannski verið krossfestur er Egill Einarsson enn á lífi og því varð Geiri fyrir valinu.

Snorri Páll: Hann var gagnrýndur fyrir að græða á hlutgervingu kvenna með því að gera út konur sem neysluvörur fyrir karlmenn.

Steinunn: En konur og karlar eru alls staðar og stöðugt hlut- og vörugerð. Sú tilhneiging hefur tekið sér bólfestu í ríkjandi menningu og hugum okkar og er því ekki bundin við eina atvinnugrein eða örfáar.

Snorri Páll: Hvað þá um meinta neyð kvenna sem dansa á súlustöðum?

Steinunn: Mér finnst hrokafult að gera sjálfkrafa ráð fyrir því að þær séu meiri fórnarlömb en aðrir sem þurfa að vinna fyrir sínu daglega brauði. Ég þoli ekki þegar talað er um konur sem fórnarlömb heimsins.“

Ég þarf varla að útskýra í smáatriðum hve ósammála ég er þessu og hve mjög mér mislíkar hve lítið er gert úr þeirri kúgun sem konur um allan heim mega þola. Mér þykir ömurlegt þegar að fólk vill ekki fordæma vonda og niðurlægjandi vinnu (hvort sem það er vændi eða önnur vinna) á þeim forsendum að öll vinna sé jafnvond.

Annars nenni ég ekki að tína til fleiri dæmi. Álit mitt liggur fyrir: mér finnst Snorri Páll og Steinunn afhjúpa sig sem álíka illgjarnt pakk og Brynjar Níelsson og Eva Hauksdóttir.

___
* Útdrátt úr viðtalinu má lesa hér.
** Ég man ekki til að ég hafi varið þau eða níumenningana hér á blogginu, en það gerði ég á öðrum vettvangi.

Efnisorð: ,